námsbók: GS  vb  kh  ath  25.09.03

forn
B R A G I

frumstig   Íslendingasögur: staður

Gísla saga Súrssonar: „Tilvitnun.“   (REFUR)

Gísla saga Súrssonar (lengri gerð)

24.

Gísli hleypur nú á land og var það eyland er þá var hann á kominn og er þó skammt þaðan til meginlands. Þetta er fyrir Hjarðarnesi. Gísli hleypur yfir eyna og í hamraklif eitt á eynni. En Bóthildur rær í brott, alsveitug út af mæði, og út á sundið hjá henni og gefa þeir Börkur engan gaum að henni er þeir sjá hana eina á skipinu. Þeir Börkur róa nú að eynni og verður Saka-Steinn skjótastur á land og rennur hann þegar yfir eyna að leita Gísla. Og er hann kemur í hamraskarðið þá stendur þar Gísli fyrir honum með brugðið sverðið og keyrir þegar í höfuð honum og klýfur hann í herðar niður og fellur hann þegar dauður á jörð.

Þeir Börkur hlaupa nú á eyna og sjá þessi tíðindi. Gísli leggst þá á sund og ætlar til meginlands. Börkur fleygir þá spjóti eftir honum og kemur í kálfann og varð það mikið sár. Gísli kippir spjótinu en hann týnir sverðinu er hann var áður móður mjög og fékk eigi á haldið. Gísli komst á land í húminu því að þá tók að myrkva af nótt og hleypur hann í skóginn en þar var víða vaxið skógur.

Nú róa þeir til lands og leita Gísla og kvía hann í skóginum því að skógurinn var óvíður en Gísli mjög móður svo að nær mátti hann ekki ganga. Hann verður nú var við menn á alla vega frá sér og veit hann nú að þeir sitja um skóginn. Gísli leitar sér nú ráðs og sér að honum mun þetta eigi endast því að skógurinn var óvíður og muni þeir þegar fá fundið hann er ljóst er og vildi hann eigi þess að bíða að svo mætti verða. Hann fer nú ofan til sjóvarins sem hljóðast svo að þeir verða eigi við það varir.

Fer hann svo inn til Haugs með flæðibökkum í myrkrinu. Hann hittir þar bónda að máli.
Refur hét bóndi sá er þar bjó. Hann var sonur Þorsteins vanstafs. Svo er frá honum sagt að hann væri manna slægastur. Hann heilsar Gísla vel og spyr hann tíðinda. En hann segir af skyndingi allt sem farið hafði með þeim Berki. Refur átti sér konu er Álfdís hét, væn yfirlits og galin í skapi, og var hún hinn mesti kvenskratti og var með hjónum hið mesta jafnræði.

Og er Gísli hefir sagt honum tíðindin þá skorar hann á Ref til fulltings og liðveislu "munu þeir brátt verða vísir að eg er brott úr skóginum og munu þeir hér skjótt koma. Er nú brátt til ráðs að taka ef þú vilt mér nokkura ásjá veita."
Refur mælti: "Eg mun gera þér þann kost að eg ráði einn fyrir hve með skal fara og hlutist þú ekki til. Hitt er ellegar að þú sjáir sjálfur fyrir þér og mun eg eiga að engan hlut."

"Þetta skal nú þiggja," segir Gísli, "sem þú býður."
"Gakk þú nú inn þá," segir Refur.

Og svo gerir Gísli.
Þá mælti Refur við Álfdísi: "Nú mun eg skipta mönnum við þig í rekkjuna."

Refur tekur þá upp klæðin öll úr rekkjunni og mælti að Gísli skyldi þar niður leggjast á hálminn. Hann gerir svo. Síðan leggur Refur á hann ofan aftur klæðin og þar leggst Álfdís ofan á klæðin og fer þar í rekkju sína.

Refur mælti: "Verið þar nú í rekkjunni hvað sem í gerist og vertu nú viðskiptis sem þá er þú hefir verst verið og spara nú ekki af í orðalagi það er illt er. En eg mun ganga til máls við þá er þeir koma og mæla það er mér sýnist."

Og eftir það gengur hann út og sér margra manna för og eru þar förunautar Barkar átta saman en hann var eftir að Fossá. Nú spyr Refur þá tíðinda er þeir koma á bæinn. En þeir kunnu honum þau að segja sem hann hafði áður spurt. Þeir frétta ef hann yrði nokkuð var við Gísla.

En hann kveður bæði vera að hann kveðst eigi vilja Gísla við hjálpa enda kveður hann Gísla ekki þar komið hafa "og er það víst að eg vildi Berki heldur liðsinnaður en mótsnúinn í því er eg má því að mér þykir engi vera betur að sér um alla hluti en hann og vildi eg gjarna vera vinur hans. En ekki munuð þér trúa sögu minni nema þér rannsakið bæinn og vil eg það fúslega og gangið inn og leitið sem þér viljið."

En er Álfdís verður þessa vör þá geyr hún á þá og mælti hvervetna illt er henni kemur í hug og skortir þar eigi illt orðalag. En Refur er allt með þeim og kveður hana vera eigi meðalfíflu, að hún gerir eigi mannamun að slíku "og ertu eigi meðalfól."

Hún mælir við hann slíkt eða verra en við þá. Og er þeir hafa rannsakað bæinn sem þeir vilja þá fara þeir út og tortryggja Ref alls ekki og biðja hann vel lifa. Fara þeir nú í brott og hitta Börk og una illa við sína ferð, hafa fengið mannskaða mikinn með svívirðing mikilli að því er þeir kalla. Fer Börkur nú heim við svo búið. En Njósnar-Helgi fer í fjörðu vestur til fundar við Eyjólf og segir honum hvað títt er.

Gísli var með Ref hálfan mánuð og eftir það fer hann í brott og skiljast þeir góðir vinir. Gísli gefur honum kníf og belti og voru það góðir gripir og ekki hafði Gísli þá laust til meira. Eftir það fór hann vestur í Geirþjófsfjörð til konu sinnar. Þótti nú enn mikið hafa aukist hans frægð og gekk af honum mikil frétt og meiri en áður. Var það mál manna að eigi hafi verið meiri atgervismaður en Gísli. En þó var hann eigi gæfumaður sem raun bar vitni.

[Netútgáfa: Saga]

    

[FORSÍÐA] [fornBRAGI]

[athugasemdir, 25.09.03]