námsbók: GS  vb  kh  ath  25.09.03

forn
B R A G I

frumstig   Íslendingasögur: Bjarg

Grettis saga: „Þau tíðkast hin breiðu spjótin.“

45.

Þorbjörn drap á dyr og fór síðan á bak húsum svo að mátti ekki sjá hann frá dyrunum heiman. Menn heyrðu að barið var og gekk út kona ein. Þorbjörn hafði svip af konunni og lét ekki sjá sig því að hann ætlaði annað að vinna. Hún kom í stofu. Atli spurði hvað komið var. Hún kvaðst ekki hafa séð komið úti. Og er þau töluðu þetta þá laust Þorbjörn mikið högg á dyrnar.

Þá mælti Atli: "Mig vill sjá finna og mun hann eiga erindið við mig hversu þarft sem er."

Gekk hann þá fram og út í dyrnar. Hann sá öngvan úti. Væta var úti mikil og því gekk hann eigi út og hélt sinni hendi í hvorn dyrastafinn og litast svo um.

Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum hann.

Atli mælti við er hann fékk lagið: "Þau tíðkast hin breiðu spjótin," segir hann.

Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður. Þá var Þorbjörn á bak kominn og lýsti víginu á hendur sér og reið heim eftir það.

Ásdís húsfreyja sendir eftir mönnum og var búið um lík Atla og var hann jarðaður hjá föður sínum.

Hann var mjög harmdauður því hann hafði verið bæði vitur og vinsæll. Engi komu fram fégjöld fyrir víg Atla enda beiddist engi bóta því að Grettir átti eftirmálið ef hann kæmi út. Stóðu þessi mál kyrr um sumarið. Varð Þorbjörn lítt þokkaður af þessu verki og sat þó um kyrrt í búi sínu.

[Netútgáfa: Saga]

    

[FORSÍÐA] [fornBRAGI]

[athugasemdir, 25.09.03]