námsbók: GS  vb  kh  ath  25.09.03

forn
B R A G I

frumstig   Íslendingasögur: Helgafell

Laxdæla saga: „Þeim var eg verst er eg unni mest.“

78.

Frá því er sagt eitthvert sinn að Bolli kom til Helgafells því að Guðrúnu þótti ávallt gott er hann kom að finna hana. Bolli sat hjá móður sinni löngum og varð þeim margt talað.

Þá mælti Bolli: "Muntu segja mér það móðir að mér er forvitni á að vita? Hverjum hefir þú manni mest unnt?"

Guðrún svarar: "Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var maður gervilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu."

Þá segir Bolli: "Skil eg þetta gerla hvað þú segir mér frá því hversu hverjum var farið bænda þinna en hitt verður enn ekki sagt hverjum þú unnir mest. Þarftu nú ekki að leyna því lengur."

Guðrún svarar: "Fast skorar þú þetta sonur minn," segir Guðrún, "en ef eg skal það nokkurum segja þá mun eg þig helst velja til þess."

Bolli bað hana svo gera.

Þá mælti Guðrún: "Þeim var eg verst er eg unni mest."

"Það hyggjum vér," svarar Bolli, "að nú sé sagt alleinarðlega" og kvað hana vel hafa gert er hún sagði þetta er hann forvitnaði.

Guðrún varð gömul kona og er það sögn manna að hún yrði sjónlaus. Guðrún andaðist að Helgafelli og þar hvílir hún.

  [Íslenzk fornrit]  [Netútgáfan: Laxdæla saga]

    

[FORSÍÐA] [fornBRAGI]

[athugasemdir, 25.09.03]