vinnubók: GS  nb  kh  íe  ath  25.09.03

forn
B R A G I

frumstig   Íslendingasögur: Bergþórshvoll

Njáls saga: „Eg hefi engis dauðs manns líkama séð jafnbjartan.“

132.

Kári bað Hjalta fara að leita beina Njáls "því að því munu allir trúa er þú segir frá og þér sýnist."

Hjalti kvaðst það gjarna gera vilja að flytja bein Njáls til kirkju.

Síðan riðu þeir þaðan fimmtán menn. Þeir riðu austur yfir Þjórsá og kvöddu þar upp menn með sér til þess er þeir höfðu hundrað manna með nábúum Njáls. Þeir komu til Bergþórshvols að hádegi dags.

Hjalti spurði Kára hvar Njáll mundi undir liggja en Kári vísaði þeim til og var þar mikilli ösku af að moka. Þar fundu þeir undir húðina og var sem hún væri skorpnuð við eld. Þeir tóku upp húðina og voru þau bæði óbrunnin undir. Allir lofuðu guð fyrir það og þótti stór jartegn í vera. Síðan var tekinn sveinninn er legið hafði í millum þeirra og var af honum brunninn fingurinn einn er hann hafði rétt upp undan húðinni. Njáll var út borinn og svo Bergþóra. Síðan gengu til allir menn að sjá líkami þeirra.

Hjalti mælti: "Hversu sýnast yður líkamir þessir?"

Þeir svöruðu: "Þinna atkvæða viljum vér að bíða."

Hjalti mælti: "Ekki mun mér um þetta einarðarfátt verða. Líkami Bergþóru þykir mér að líkindum og þó vel. En líkami Njáls og ásjóna sýnist mér svo bjartur að eg hefi engis dauðs manns líkama séð jafnbjartan."

Allir sögðu að svo var.

[Netútgáfa: Njáls saga] [Íslenzk fornrit]

     [FORSÍÐA] [fornBRAGI]

[athugasemdir, 25.09.03]